Wednesday, September 30, 2009

Dead Snow


Dead Snow fjallar um hóp ungs fólks sem leggur leið sína uppí fjalllendi Noregs að skemmta sér í litlum afskekktum kofa í fjöllunum. Eins og nafnið á myndinni gefur að kynna er allt útí snjó. Svæðið sem þau eru á var hernumið af nasistum í seinni heimsstyrjöldinni og er fólk mjög hrætt við þennan stað. Síðan byrja skrítnir hlutir að gerast og unga fólkið verður hrætt en sjá bara útí svart myrkrið. Í ljós kemur að þetta eru nasista zombíar komnir til að myrða þau hrottalega til að ná í svolítið sem fólkið ber. Myndin er blóðug svo ekki sé meira sagt.

Eftir slaka RIFF viku fór ég með veikt hugarfar á Dead Snow og hugsaði með mér "plís ekki vera jafn ömurleg og Reykjavík Whale Watching Massacre". En þótt ótrúlegt sé var þessi mynd hin mesta skemmtun! Ég var búinn að þrá að sjá góða splatter mynd lengi og svo sé ég þessa og gjörsamlega heillast af henni. Bara framúrskarandi leikarar í þessari mynd og ekki skaðar að þau séu norsk, fáranlega fyndið tungumál. Þessi mynd var eiginlega hin fullkomna splatter mynd.
Algjört meistaraverk! Ég held ég hafi aldrei skemmt mér jafn vel í bíó. Hún var svo yndislega tilgangslaus öll saman með zombie nasista að myrða ungt fólk, algjör snilld. Ég held að handritshöfundurinn að þessari mynd sé einhver snillingur. Kannski ég ráðleggi Sjón að fá ráðleggingar frá honum. Þessi mynd er svo blóðug að það er ekki hægt að lýsa því hvað það er geðveikt fyrr en maður hefur séð hana og zombíarnir - ÞEIR ERU SICK! :D 

Ég er svo glaður að ég sá þessa mynd því annars hefði þessi hátíð eiginlega bara suckað frekar mikið en þetta norska lið, það kann þetta. Það talar líka svo fyndið, var ég kannski búinn að segja það? En hver sem þú ert þá er þetta mynd sem þú verður að sjá! Þetta er ein mesta snilld sem ég hef nokkurn tímann séð. Þetta er kannski ekki góð greining á myndinni með að segja að hún sé bara sick góð og eitthvað en hey hún er það. Þú, sem ert að lesa þetta, horfðu á hana eða ekki einu sinni reyna að segja að þú hafir lifað góðu lífi. Dead Snow = Fullkomnun.

-Árni Gunnar

Myrka hliðin á RIFF

Kvikmyndahátíðir hafa alltaf í för með sér gríðarmikið magn af bíómyndum og er það í raun bæði kostur þeirra og galli. Þegar magn kvikmynda er svona mikið er nóg af góðum myndum en á móti fullt af slæmum. Það vill svo óheppilega til að mín reynsla af RIFF var örugglega eins skrýtin og leiðinleg og hægt var. Það voru þó nokkrir ljósar punktar, sem ég mun ræða um seinna.

Slovenka

Slovenka er slóvensk mynd um stelpu að nafni Alexandra sem gengur líka undir nafninu Slovenka eða slóvenska stelpan. Slovenka er í raun nafn hennar sem vændiskona. Henni gengur illa í skóla og framfleytir sér með að selja sig. Pabbi hennar er eini ættingi hennar sem hún hefur áhuga á að hafa einhver samskipti við en leitar við að hitta ekki mömmu sína. Snemma í myndinni deyr einn viðskiptavina hennar úr hjartaáfalli og löggan leitar um alla borg að henni. Alexandra reynir að flýja það með bestu getu og í senn berjast gegn erfiðum undirheimanna. Hún kemst í hann krappann oft í þessari mynd en leitar á oft til vinkonu sinnar sem hjálpar henni oft. Þessi mynd fjallar eiginlega um flótta Alexöndru frá köldum veruleikanum og hættunum sem honum fylgja.

Strax frá byrjun myndarinnar var mikið gert upp úr því að allt væri sem vonlausast. Myndin sem var dregin af þessu lífi í Slóveníu og íbúum hennar var sannarlega sorgleg. Allt umhverfi var mjög dökkt og lífi vændiskonu, eins og Slovenka, var lýst sem engum dansi á rósum. Þar sem ég hef ekki verið í vændisbransanum þá veit ég ekki kannski mikið um þetta líf en ég trúi að þessi lýsing hafi verið frékar rétt. 

Ég varð fljótt mjög leiður á öllu vonleysinu sem ríkti í myndinni, ekkert lagaðist og enginn vandamál sem komu upp voru leyst á neinn eða einn hátt. Það gerðist í raun ekki mikið í þessari mynd annað en hörmulegar lýsingar á skringilegu lífi Alexöndru og svo líka þunglyndis pabba hennar. Í lok myndarinnar var ekki búið að leysa nein vandamál og allt hélt áfram sinn vanagang. Mér fannst mjög pirrandi að hún endaði í svona lausu lofti og í raun sat ekkert eftir í mér. Ég fann ekkert til með þessari stelpu því að það var búið að troða þessum skítuga undirheimi of mikið ofan í mig gegnum alla myndina. Leikur Ninu Ivanisin var alls ekki heldur sannfærandi sem Alexandra. Að mínu mati tilbreytingalaus mynd sem einblíddi of mikið á vondu hliðar lífsins. Auðveldlega gleymanleg og sat ekkert eftir í mér.



Bandaged

Bandaged er þýsk mynd sem fjallar um stelpuna Lucille sem býr hjá pabba sínum, Arthur og ömmu sinni í mjög afskekktu setri. Lucille reynir að fremja sjálfsmorð þegar hún þolir ekki að lifa lengur í slíkri einangrun en endar brennd og afmynduð í andlitinu. Pabbi hennar ætlar að gera aðgerð á henni sjálfur og fær til sín hjúkku til að aðstoða sig með ferlið. Hjúkkan heitir Joan og fljótlega myndast sterk tengsl milli Lucille og hennar. Ástarsamband þetta er fyllt af losta og yrði alls ekki liðið ef einhver kæmist að því.

Fyrsta sem ég hugsaði þegar ég var að horfa á þessa mynd var af hverju það var töluð enska í myndinni. Reyndar var það mín sterkasta hugsun í gegnum alla myndina. Varla voru þau að gera þetta fyrir erlendan markað, þetta er ekki myndin í það. Af hverju ekki að tala bara á þýsku? Í staðinn fyrir að tala á bjagaðri ensku í gegnum alla myndina. Stundum var þetta það slæmt að ég skildi ekki orð sem sagt var. Mér finnst það vera mjög mikil synd að þau ákváðu að gera þessa mynd á ensku. Ég er þó ekki viss að myndin hefði eitthvað verið góð þá, kannski aðeins betri bara. Skil ekki áráttu nýstefnuleikstjóra að hafa eitthvað klám í hverri mynd til að ögra manni. Mér fannst það bara ekkert ögrandi, bara leiðindi. 

Ef þú ert mikið fyrir að hlusta á lélega ensku og horfa á skrýtin kynlífsatriði í 92 mín þá er þetta algjörlega málið fyrir þig. Bara ekki bjóða mér að að horfa á hana.



The Phantom 

Ég nenni ekki að gera það sjálfum mér að skrifa einhverja lýsingu á þessari mynd og gæti það varla, enda labbaði ég út eftir fimmtán mínútur. Þessi mynd er gott dæmi um ögrunaráráttu sumra karla sem vilja kalla sig leikstjóra sem eru í raun bara að blekkja sig og aðra með því að fela sig bak við svæsin kynlífsatriði. Mig langar helst að gefa þessum mönnum ráð um að hætta að gera bíómyndir og byrja á einhverju öðrum ferli, eins og t.d. að vinna í bakaríi. Þar geta þeir allavega ekki komið nálægt bíómyndum. Næst þegar ég vil horfa á homma í tilvistarkreppu stunda mjög gróf munnmök inná klósetti þá mun ég bara... nei bíddu, ÉG MUN ALDREI VILJA ÞAÐ AFTUR!

Another Planet

Myndin Another Planet er heimildarmynd eftir ungverska leikstjórann Moldovanyi Ferenc. Myndin fjallar um börn í hlutum heimsins þar sem lífsgæði eru lítil sem engin. Þessi mynd sýnir hvernig líf barnanna er og umhverfið sem þau lifa í. Myndinni fylgir mest allri róandi tónlist og er lítið um tal. Aðallega er talað þegar viðtal eru tekin við börnin. 

Þessi mynd er ein af þessum myndum sem ekki er hægt að horfa á þreyttur. Allar senur eru mjög langar og oft eru bara tekin skot af landslagi með róandi tónlist undir mínútunum saman. því miður var ég mjög þreyttur þegar ég fór á þessa mynd en þó gat ég notið hennar að vissu marki. Félagar mínir sem fóru með mér sofnuðu báðir tveir og fannst mér það hálfger áskorun að sitja í gegnum hana alla. Það er svo sannarlega erfitt að horfa uppá sorgarsögur í þvílíku magni og var í þessari mynd. Allir í myndinni hafa það mun verra en maður sjálfur og það lét mig hugsa, hugsa um hvað ég hefði það í raun og veru fáranlega gott. Það er mjög heilbrigt að horfa á mynd eins og þessa bara til að vekja sig til umhugsunar um heiminn og sjálfan sig. Þessi mynd var tekin á svo afskekktum stöðum í svo mismunandi menningarheimum að undir lokin var ég hættur að kippa mér upp við það. Sannarlega mun betri mynd en þær að ofan en þó ekki alveg það sem ég þráði. Reyndar var ég svolítið þreyttur.


Slóvensk vændiskona, lesbía í sáraumbúðum, hommi í tilvistarkreppu og þjáð börn. Já, ég vil meina að þetta hafi ekki verið mitt ár á RIFF. Kannski næst. Vonandi.

-Árni Gunnar






Sweethearts of the Prison Rodeo


Sweethearts of the Prison Rodeo var fyrsta myndin sem ég sá á RIFF. Fór á hana á laugardegi í Hafnarhúsinu í mjög heillandi sal. Allir settust á venjulega tréstóla og myndin byrjaði að rúlla. Myndin er heimildarmynd um fanga í Oklahoma ríki bandaríkjanna. Einu sinni á hverju ári geta fangar alls staðar að úr ríkinu tekið þátt í svokölluðu "rodeo" eða á íslensku kúrekasýningu, sem gefur kannski ekki nægilega skýra mynd á þessum brjáluðu atburðum. Fangelsisvistin verður mun bærilegri fyrir fangana þegar þeir hafa eitthvað eins og þennan atburð að hlakka til. Myndin er að hluta til mynd um daglegt líf fanganna og hinsvegar undirbúning fyrir keppnina og um keppnina sjálfa. 

Oft á köflum er mjög átakanlegt að horfa og hlusta á sögur sem þessir fangar hafa að segja. Því í raun er þetta fólk bara venjulegt fólk sem gerði mistök í lífsleiðinni og þarf að gjalda fyrir það. Vonleysið er mjög mikið hjá föngunum og er þetta rodeo sem ljós í myrkrinu. Það vilja allir taka þátt, sýna hvað í þeim býr og finnast frjáls í einn dag. Í myndinni er eitt kvennafangelsi sem tekur þátt í keppninni og mér fannst ótrúlegt að sjá allar þessar konur í fangelsi. Ég hafði í raun aldrei hugsað sérstaklega um fanga sem konur, kannski bara einhverja harða karla. Þeirra sögur voru oftar en ekki mun átakanlegri en sögur karlanna því flestar kvennanna þarna inni voru mæður, í raun eru um 80% kvenfanga í Oklahoma mæður. 
Þessi mynd sýndi mér virkilega hvað það er gott að hafa frelsi. Þetta fólk var fast í fangelsi vegna mistaka sem þau gerðu á lífsleiðinni og eina leið þeirra til að finnast frjáls var þetta rodeo. Aðeins einn dagur sem þau gátu fundist vera frjáls, ekki finnst mér það 
mikið af dögum. Þessi mynd var með betri myndum sem ég sá á RIFF (eins og mun kannski sjást á komandi bloggum) og allt í allt virkilega vel heppnuð heimildarmynd um erfitt viðfangsefni.

Skemmtilegur trailer fyrir myndina:
 http://www.youtube.com/watch?v=NsqqWWzaWbI&feature=related

-Árni Gunnar





The General


The General er gamansöm þögul kvikmynd frá árinu 1926 með Buster Keaton í aðalhlutverki. Buster fer með hlutverk lestarstjórans Johnny Gray sem er stoltur eigandi eimreiðarinnar The General. Hann elskar konu sem heitir Annabelle Lee og gerir allt til að heilla hana. Myndin gerist á tímum borgarastyrjaldinnar í Bandaríkjunum. Johnny er ekki kvaddur í herinn því að hann er vélamaður og gæti verið mikilvægari sem slíkur, en Annabella trúir honum ekki og telur hann vera heigul. Síðan komst upp sú staða að Önnubellu og lestinni hans er rænt af óvinum. Johnny skýst þá af stað eftir óvinunum til að endurheima ástirnar í lífi sínu. 

Buster Keaton sýnir frábæran leik í þessari fyndnu mynd. Myndin sýnir virkilega hvað góður leikur er mikilvægur í bíómynd, þar sem ekkert tal er og myndin er svarthvít. Tónlistin í myndinni var mjög áhrifarík og spilaði með undirmeðvitundina, t.d. þegar atriði sem tengdust hernum komu, byrjaði sterk tónlist með hetjuívafi sem átti örugglega að vekja mikla þjóðerniskennd hjá mönnum. Bandarískar myndir enn í dag upphefa herinn mjög, býst við að það sé stór hluti samfélags þeirra. 

Þegar ég var að horfa á þessa mynd hugsaði ég oft hversu ótrúlegar margar senurnar voru, miðað hvað það er langt síðan þetta var tekið upp.  Eins og t.d. ein sena þegar heil brú brotnar undir lest sem steypist svo ofan í ána fyrir neðan. Fyrst hugsaði ég: "en flottar tæknibrellur, létu meira að segja vatnið skvettast og allt" en síðan fattaði ég að þessi mynd var gerð 1926, mér leið kjánalega. En þessi mynd er í raun og veru eitthvað sem allir sem hafa áhuga á grinmyndum ættu að sjá. Það er mjög athyglisvert að sjá hvernig myndin gat verið svona fyndin án neins tals. Þetta er nokkuð sem samtíðar grínmyndaleikstjórar ættu að taka sér til fyrirmyndar. En já frábær mynd sem ég mæli eindregið með fyrir fólk með gott skopskyn.

-Árni Gunnar