Wednesday, September 30, 2009

The General


The General er gamansöm þögul kvikmynd frá árinu 1926 með Buster Keaton í aðalhlutverki. Buster fer með hlutverk lestarstjórans Johnny Gray sem er stoltur eigandi eimreiðarinnar The General. Hann elskar konu sem heitir Annabelle Lee og gerir allt til að heilla hana. Myndin gerist á tímum borgarastyrjaldinnar í Bandaríkjunum. Johnny er ekki kvaddur í herinn því að hann er vélamaður og gæti verið mikilvægari sem slíkur, en Annabella trúir honum ekki og telur hann vera heigul. Síðan komst upp sú staða að Önnubellu og lestinni hans er rænt af óvinum. Johnny skýst þá af stað eftir óvinunum til að endurheima ástirnar í lífi sínu. 

Buster Keaton sýnir frábæran leik í þessari fyndnu mynd. Myndin sýnir virkilega hvað góður leikur er mikilvægur í bíómynd, þar sem ekkert tal er og myndin er svarthvít. Tónlistin í myndinni var mjög áhrifarík og spilaði með undirmeðvitundina, t.d. þegar atriði sem tengdust hernum komu, byrjaði sterk tónlist með hetjuívafi sem átti örugglega að vekja mikla þjóðerniskennd hjá mönnum. Bandarískar myndir enn í dag upphefa herinn mjög, býst við að það sé stór hluti samfélags þeirra. 

Þegar ég var að horfa á þessa mynd hugsaði ég oft hversu ótrúlegar margar senurnar voru, miðað hvað það er langt síðan þetta var tekið upp.  Eins og t.d. ein sena þegar heil brú brotnar undir lest sem steypist svo ofan í ána fyrir neðan. Fyrst hugsaði ég: "en flottar tæknibrellur, létu meira að segja vatnið skvettast og allt" en síðan fattaði ég að þessi mynd var gerð 1926, mér leið kjánalega. En þessi mynd er í raun og veru eitthvað sem allir sem hafa áhuga á grinmyndum ættu að sjá. Það er mjög athyglisvert að sjá hvernig myndin gat verið svona fyndin án neins tals. Þetta er nokkuð sem samtíðar grínmyndaleikstjórar ættu að taka sér til fyrirmyndar. En já frábær mynd sem ég mæli eindregið með fyrir fólk með gott skopskyn.

-Árni Gunnar


1 comment: